Færsluflokkur: Bloggar
20.4.2008 | 02:40
Félag Anti-Rasista tók þátt í málþinginu "Hinn grunaði er útlendingur"
Dane Magnússon, formaður Félags Anti-rasista
Þorbjörn Broddason, prófessor við Háskóla Íslands
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu
Jón Kaldal, ritstjóri Fréttablaðsins
Ég var ekki alveg sáttur við hversu mjög tímanum var misskipt á milli mannana. Stefán og Jón fengu nær allan tímann til að tjá sig á meðan Dane fékk enn minni tíma og Þorbjörn nánast engann.
Ef ég man rétt þá tjáði Þorbjörn sig aðeins einu sinni á fundinum í upphafsspurningunni sem allir fengu sem hljóðaði "á að tilkynna þjóðerni manna í fréttaflutningi". Þorbjörn svaraði því til að það gæti valdið fordómum að birta þjóðerni afbrotamanna í fréttaflutningi.
Jón Kaldal svaraði spurningunni á þá leið að stundum væri nauðsynlegt að taka fram þjóðerni manna í fréttum en hann skaut yfir markið þegar hann sagði það hafa verið í lagi að birta þjóðerni grunaðs manns á þeim grundvelli að bæjarbúar hafi verið byrjaðir að tala um sín á milli að Pólverji hefði framið glæpinn. Það er hinsvegar alls ekki sniðugt að hafa birt þjóðerni grunaðs manns vegna orðróms bæjarbúa. Jón svaraði nokkrum spurningum á fundinum og minntist meðal annars á dálk nýrra Íslendinga í Fréttablaðinu. Sá dálkur er áhugaverður og gott framtak hjá Fréttablaðinu að gefa fólki færi á að kynna sér hvernig það er fyrir nýja Íslendinga að komast inn í samfélagið.
Stefán Eiríksson lögreglustjóri svaraði spurningunni ef ég man rétt á svipaðann hátt og Þorbjörn. Hann fjallaði einnig um það að lögreglan réði innflytjendur til vinnu og hefði lært og væri enn að læra um hvernig beri að bregðast við dauðsföllum annara trúarhópa en kristinna. Þessu fagna ég enda þarf að sjálfsögðu að læra inn á siði annars fólks til að sameining geti skapast í samfélaginu. Þó kom upp leiðinlegt atvik á fundinum sem ég mun fjalla um síðar sem ég tel því miður vera til vansa fyrir Stefán.
Dane Magnússon, formaður Félags Anti-Rasista, svaraði upphafsspurningunni á svipaðan hátt og Þorbjörn og benti réttilega á að það getur skapað hatur gegn heilu þjóðunum að taka í sífellu fram þjóðerni brotamanna þar sem slíkt persónugerir heilar þjóðir út frá gjörðum örfárra. Hann benti einnig á það að það að nafngreina grunaða menn væri af hinu illa þar sem það getur lagt líf þeirra sem eru grunaðir en eru saklausir í rúst. DV á sínum tíma var þekkt fyrir þessar aðferðir og varð það frægt þegar maður svipti sig lífi eftir að blaðið hafði sagt að hann nauðgaði drengjum. Þarna skipaði blaðið sér í dómarasæti og tók í raun manninn af lífi án þess að þetta væri sannað á hann.
Nokkrir einstaklingar fengu að spyrja spurninga á fundinum og ber þar að nefna Paul Niklov, Þingmann Vinstri Grænna og eina innflytjendanum á þingi, en hann tjáði sig meðal annars mikið um grein Jóns Gnarr sem birtist fyrir nokkrum árum þar sem Jón gerir grín að fréttaflutningi sem tilgreinir kynhneigð afbrotamanns til að sýna fram á hversu fáránlegt það sé að vera að nefna þjóðerni manna í þessu samhengi.
Amal Tamini sem situr í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, fyrst innflytjenda, tjáði sig um það að ef þjóðerni manna er nefnt í fréttaflutningi geti það valdið hatri á öllum úr þjóðflokknum sem nefndur er.
Eftir að Amal tjáði sig um þetta gerðist nokkuð sem olli hneykslun minni og allavega nokkra annara en þá tjáði Stefán lögreglustjóri sig um það að allt snerist um það hvernig fólk læsi úr fréttunum og fór að benda á fólk í salnum í háði. Bryndís, meðstjórnandi Félags Anti-Rasista, spurði hann þá hvernig hefði mátt lesa eitthvað annað en neikvætt út úr þeim fréttaflutningi sem hafður hafði verið uppi vegna hatursárásar á dökkann eiginmann hennar þar sem látið var hljóma að fjölskyldan væru í raun sökudólgarnir og þjóðerni hennar, barnastaða hjónanna og upplýsingar um búsetu voru gefnar upp. Þetta var afar beitt spurning og lögreglustjórinn átti fá svör við þessu og hann virtist vera skömmustulegur það sem eftir lifði fundar.
Stefán er ágætis maður og stóð sig að mörgu leiti vel á fundinum en þarna gekk hann allt of langt. Hann hneykslaði vissulega mig en særði þó aðra manneskju þar sem málefnið stóð henni mjög nálægt hjarta þar sem eiginmaður hennar varð fyrir fólskulegri árás og fjölmiðlar brugðust rangt við málinu. Skiljanlega gat hún ekki lesið neitt annað út úr þeim fréttaflutningi en það sem sagt var. Ég vona að Stefán finni það hjá sér að biðjast afsökunnar á þessum málaflutningi sínum enda var hann beinlínis rangur og ummælin voru særandi.
Félag Anti-Rasista er búið að sanna sig sem öflug samtök sem taka virkan og góðan þátt í þjóðmálaumræðunni og Dane stóð sig með prýði á fundinum þó svo að hann hefði mátt fá meira sviðsljós og lengri tíma til að tjá sig. Einnig taldi ég mjög hetjulegt af Bryndísi að láta ekki rangfærslur Stefáns sem vind um eyru þjóta og svara þeim á málefnalegann hátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2008 | 06:48
Rétt ákvörðun um lokun bloggs:)
Fyrir skömmu var bloggi Skúla Skúlasonar lokað vegna fordóma sem hann dreifði í garð múslima.
Mikil læti hafa skapast vegna þess en ég tel Morgunblaðið hafa unnið gott starf með þessu og eiga
þeir hrós skilið fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.4.2008 | 05:22
Hvað eru fordómar?
Fordómar birtast okkur víða en þeir byggja á hræðslu, fáfræði og vanþekkingu fyrir hinu óþekkta. Fordómar felast t.d. í því að láta alla einstaklinga úr vissum hóp í sama flokk og dæma þá út frá því. Fullyrðingar eins og "svartir eru latir", "pólverjar eru glæpalýður", "múslimar eru öfgafullir", og "gyðingar eru nískir" flokkast því sem fordómar þar sem einstaklingurinn sem lætur slíkt út úr sér notar þar vanþekkingu sína til að búa sér til fullyrðingu um heilan hóp manna sem telur margar milljónir. Fleiri fordómar fyrirfinnast þó en þeir geta t.d. beinst gegn samkynhneigðum og geðsjúkum. Fæstir sem hafa fordómana vilja hins vegar gangast við því að hafa fordóma og það flækir málið mikið fyrir þá sem vilja uppræta fordómana. Besta leiðin til þess er að kynna sér fordómana og þekkja þá til þess að geta bent hinum fordómafullu á villur síns vega. Fordómar eru líkt og rasismi mikið þjóðfélagsmein og eru mjög slæmir bæði fyrir þá sem hafa fordómana og fyrir þá sem lenda í þeim. Fordómarnir hafa í gegnum tíðina oft náð að tvístra heilu samfélögunum og verið orsakavaldur að ýmis konar óhugnaði sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir hefðu ólíku hóparnir haft skilning á hvor öðrum og sest niður rólega og rætt málin. Fordómar eru stundum notaðir meðvitað af mönnum og stjórnmálaflokkum til að ná sínu fram í blekkingarleikjum þeirra við að ná atkvæðum fólks sem ekki veit betur og er Nasistaflokkur Hitlers sennilega þekktasta dæmið um það. En slíkar aðferðir hafa líka verið notaðar af ýmsum flokkum í seinni tíð sem sækjast eftir atkvæðum ákveðins hóps manna með því að ala á fordómum gagnvart öðrum hópi sem er þá persónugerður sem hluti hins illa. Frægasta dæmið um þetta hin síðari ár er Jörg Haider og Frelsisflokkur hans í Austurríki sem komst í ríkisstjórn með því að ala á fordómum fólks gagnvart útlendingum og gyðingum. Líkt og með baráttuna gegn rasisma ber okkur skylda til þess að berjast gegn fordómum sem því miður eru mjög algengir á meðal fólks í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.4.2008 | 05:17
Hvað er rasismi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2008 | 05:12
Félag Anti-Rasista
Félag Anti-Rasista var stofnað í September árið 2006 til að berjast gegn vaxandi fordómum á Íslandi af fimm félögum með ólíkann bakgrunn sem voru sömu skoðunar um þennan vanda á Íslandi. Markmið okkar er að skapa hér fordómalaust samfélag þar sem allir menn óháð uppruna munu njóta sömu mannvirðingar. Við trúum því að sameinuð getum við myndað öfluga rödd gegn hatri í samfélaginu og barist hart gegn þeim ógnum sem okkur stefjar nú af rasisma og þess konar málflutningi sem má finna víðsvegar á landinu og stundum hjá ólíklegasta fólki og á ólíklegustu stöðum. Félagið hefur vaxið hratt undanfarið ár eða svo og erum við nú um 400 talsins og höfum eigin vefsíðu, bloggsíðu og stuðningsaðila víðsvegar að. Við höfum tvívegis áður haldið tónleika gegn rasisma sem gengu framar vonum og einnig höfum við verið virk í að dreifa skoðunum okkar í gegnum fjölmiðla, á málþingum og stjórnmálafundum. Meirihluti meðlima okkar eru Íslendingar en í stjórninni höfum við það fyrirkomulag á að skipta 50/50 á milli Íslendinga og Erlendra til að ná sem bestu jafnvægi í það sem við erum að gera. Við leitum að fleira fólki sem er tilbúið að ganga í félagið en til þess að ganga til liðs við okkur þá fyllirðu út umsókn á heimasíðu okkar www.anti-rasista.net. Við hvetjum því alla sem hafa áhuga og vilja til að berjast gegn rasisma og fordómum að ganga til liðs við okkur og hjálpa okkur í baráttunni fyrir fordómalausu Íslandi. Markmið okkar er háleitt en sameinuð getum við náð því fram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2008 | 20:15
Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda tilbúin
07. apríl 2008
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Áætlunin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.
Jóhanna fól innflytjendaráði að semja framkvæmdaáætlunina í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og samþykkta stefnu um aðlögun innflytjenda.
Meðal helstu verkefna áætlunarinnar er að samin verði löggjöf um aðlögun innflytjenda, að innflytjendur njóti sömu kjara, réttinda og vinnuverndar og aðrir, upplýsingaöflun, rannsóknir um innflytjendamál og miðlun upplýsinga til innflytjenda verði efld, skráningar dvalar- og atvinnuleyfa verði einfaldaðar og samræmdar og að réttur til túlkaþjónustu verði skýrður.
Fyrirmyndir að móttökuáætlunum sveitarfélaga verða samdar og hlutverk ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum skýrð, mat og viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi verður einfaldað, efnt verður til átaks gegn fordómum og mismunun og íslenskukennsla og samfélagsfræðsla verður efld.
Framkvæmdaáætlunin verður endurskoðuð að tveimur árum liðnum í kjölfar skýrslu um árangurinn og að þá verði ný áætlun til fjögurra ára lögð fyrir Alþingi. - ghs
Heimildir: visir.is (http://visir.is/article/20080407/FRETTIR01/104070145)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.4.2008 | 00:58
Mannfyrirlitning og útlendingahatur, ...og börnin taka þátt.
Ég get ekki kallað það annað en grimmd og mannfyrirlitningu þegar að óvönduð og illa ígrunduð orð
eru farin að hafa áhrif á gjörðir barna.
Þá á ég við hvernig ljótur áróður í garð útlendinga er að skila sér áfram.
Hið besta fólk, sem engum hefur verið til ama eða leiðinda, varð fyrir ömurlegu aðkasti nú um helgina.
Krakka hóp (13 ára) datt í hug að stríða aðeins útlendingunum, þeir væru nú ekki að gera góða hluti hér á landi.
Það hófst fyrra kvöldið með "stríðni", gera bjölluat o.s.frv. líka að banka á glugga.
Einn maðurinn sem þar býr reiddist og það endaði með að hann henti ...
já, súrri gúrku út fyrir í áttina að einu barninu.
Það fór um eins og eldur í sinu að útlendingarnir hefðu nú verið að ráðast á íslenskt barn.
Krakkakjánarnir hópuðust að húsinu í gærkveldi.
Peppuðu hvert annað upp, voru á leikvellinum fyrir utan, "skemmta sér" eins og þau orða það núna.
Hömuðust á bjöllunni, hentu rusli inn um gluggana... og ég veit ekki hvað.
Þarna fyrir innan lokaðar dyr var lítið barn, fullorðin kona og ung móðir.
Skelfingu lostnar. Gátu enga vörn sér veitt. Því að hringja í lögreglu er varla valkostur hjá þeim.
Þetta endaði með því að krakkarnir brutu hjá þeim rúðu, krakkinn sem var harðastur í "útlendingahatrinu",
sparkaði í hana.
Kallandi ljóta hluti um útlendinga.
Einn af mönnunum sem þarna býr varð ær af reiði, maður sem er öðrum stundum ekkert nema almennilegur,
lái honum hver sem vill.
Hann bankaði upp á hjá foreldrum eins barnsins sem var þarna. Þau voru ekki heima, hann kom aftur, þau voru ekki heima.
Í morgun kom hann enn og aftur, hefur líklega ekki skilið þegar honum var sagt að þau kæmu ekki heim fyrr en síðdegis.
Æddi þar inn og reyndi fyrr um daginn að draga barnið sem þarna var út úr lyftu. Sem var auðvitað hrikalegt og alrangt.
Endað var á því að hringja í lögreglu, út af hegðun hans.
Þegar lögreglan var á staðnum komu foreldrarnir heim, höfðu aldrei haft neitt nema gott af manninum að segja.
Svo málið var rætt á góðum nótum, honum gert ljóst að hann mætti aldrei, aldrei fara inn í íbúðir annarra,
alls ekki snerta börnin. Fyrst og fremst að treysta lögreglunni og hringja strax við svona uppákomur.
Eina sem maðurinn bað um var að rætt væri við krakkana og foreldra þeirra.
Ákveðin móðir ætlar sér að tala við skólastjóra í þeim tveim skólum sem börnin komu úr.
Fá að tala við krakkana úr þessum árgangi.
Reyna að ná sambandi við foreldrana.
En hver segir að það sé í lagi að ala á fordómum eins og gert hefur verið?
Hverjum er það til gagns?
tekið af http://www.malefnin.com
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.4.2008 | 17:00
Illa vegið að Félagi Anti-Rasista
Í DV þann 3. Apríl birtist á forsíðunni frétt um að miðum hefði verið dreift í hverfi Viðars Helga Guðjohnsen, formanns Landsambands Ungra Frjálslyndra.
Á miðunum sem andrasistar voru sagðir hafa dreift var spurt hvort rasisti byggi í hverfinu og gaf Viðar sig strax fram sem manninn sem um var rætt. Það hlýtur að teljast nokkuð merkilegt að hann hafi vitað það strax því í venjulegu íbúðarhverfi eru um 50-100 hús og enn meira af fólki.
Á baksíðu er svo fréttin sjálf en þar er sagt að anti-rasistar væni formann Ungra Frjálslyndra um kynþáttahatur. Viðar fær fyrstu orðin í byrjun greinarinnar og byrjar í vörn er hann segist ekki vera rasisti. Farið er létt yfir sögu Frjálslyndra og þátt Viðars í að dreifa fordómum gegn innflytjendum fyrir kosningar 2007 og að Frjálslyndir hafi á þeim tíma (og enn þann dag í dag) verið sakaðir um rasisma.
Skilaboð miðans eru svo birt orðrétt eftir að ýjað er að því að þeir sem dreifðu miðunum hafi verið í Félagi Anti-Rasista og hafi gert það til að hóta Viðari að draga til baka íhugaða lögsókn sína gegn félaginu og mér vegna greinar minnar "Misheppnaðir tónleikar gegn rasisma" þar sem ég m.a. gagnrýni bæði Frjálslynda Flokkinn og Viðar.
Viðar telur miðadreifinguna ámælisverða og kvartar undan því að þetta sé ekki einungis árás á sig heldur einnig á skoðanafrelsi manna. Hér er sami maður að tala um skoðanafrelsi og sá sem hótar heilum samtökum og mér öllu illu fyrir að birta grein sem honum líkaði ekki við. Viðar ætti allavega fyrst að læra sjálfur um hvað skoðanafrelsi snýst áður en hann segir aðra vanvirða það.
Dane Magnússon, formaður Félags Anti-Rasista, á síðustu orð greinarinnar en þar segir hann félag sitt á engan hátt tengjast dreifingu miðana.
DV fer afar illa að ráði sínu í öllum þessum fréttaflutningi. Fjórum sinnum er Félag Anti-Rasista beint og óbeint tengt við miðadreifinguna þrátt fyrir engar sannanir. Tvívegis er gefið í skyn að mín grein hafi ollið miðadreifingunni. Blaðamaður tekur afstöðu til þess að Viðar sé ekki kynþáttahatari án raka og leyfir honum einnig að koma því á framfæri sjálfum í byrjun greinar. Dane Magnússon fær sáralítið pláss til að tjá sig um málið og það eftir að fréttaflutningurinn hefur ítrekað mótað skoðanir fólks um að Félag Anti-Rasista hafi staðið á bak við þetta. Hér er því félagið dæmt fyrirfram af DV sem sekt á dreifingu miðana.
Ég veit ekki til þess að Félag Anti-Rasista hafi hingað til stundað miðadreifingar en ef þeir hafa gert það þá hafa þeir örugglega gert það undir nafni og hefðu gert það í þessu tilfelli ef þeir hefðu dreift miðunum. Það mætti halda að blaðamaður ásamt mörgu öðru fólki hafi ítrekað litið fram hjá þeim parti miðans þar sem sendandinn gefur sig upp "Í-P action group".
Þeir sem gætu hafa dreift miðunum undir þessu nafni eru t.d. útlendingar sem teldu sér stafa ógn af Viðari og FF, fólk í hverfinu með þeldökkt barn, áhyggjufullur borgari eða jafnvel einhver samtök sem styðja Félag Anti-Rasista en hafa gert þetta í trássi við forystu félagsins. Nánast allir gætu legið undir grun ef út í það er farið. Ég hef þó sjálfur mína ritskoðuðu kenningu um málið.
Fréttaflutningur DV í þessu máli kemur mjög á óvart miðað við að gæði blaðsins hafa batnað mjög undanfarið ár. Ég hvet DV til að vanda sig betur næst í fréttaflutningi sínum og varast hvern það upp hefur og hvern það niður dregur.
Sveinn Helgason
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.4.2008 | 11:36
Fordómar vinna gegn okkur sjálfum.
Fordómar eru ekki bara augljós hatur, Við verðum að átta okkur á því að við erum uppfull af fordómum þegar við segjum setningar eins og : ,, Ég er ekki haldin/n fordómum gagnvart samkynhneigðum en mér finnst að þau eigi bara að halda þessu fyrir sig" Eða ,, Ég er ekki haldin/n kynþáttarfordómum en ég myndi ekki vilja að dóttir mín giftist svörtum manni"
Fordómar eru ekki bara áróðursfullar opinberar hatursaðgerðir, þeir eru ekki síður meiðandi og skemmandi ,,en-setningar" þessar setningar lýsa hræðslu.
fordómar eru ótti við tilfinningar.
Við erum hrædd við að upplifa áður óþekktar tilfinningar, Við erum hrædd við Viðbrögð okkar gagnvart því sem er framandi.
Við óttumst að hið óþekkta raski jafnvægi okkar eða umhverfi.
Fordómar vinna gegn okkur sjálfum. Við þurfum ekki að vera hrædd við útlit fólks.
Við þurfum ekki að vera hrædd við framandi tungumál og menningu, Ólikar skapgerðir eða geðheilsubresti.
Fordómar hafa veruleg skaðleg áhrif á Heilsu og liðan, Jafnt þeirra sem þeir beinast gegn og hinna sem bera þá.
Það er því þjóðarhagur að okkur takist að vekja sem flesta til vitundar um eðli þeirra og orsakir,hvernig þeir birtast og hvaða afleiðingar þeir hafa.
Með átaki þessu viljum við hvetja til virðingar fyrir manneskjunni, hver sem hún er. Karl eða Kona, ung eða gömul, fötluð eða ófötluð, án tillits til uppruna, kynhneigðar eða trúarbragða.
Einkunarorð okkar eru: að virða allt fólk því að allar manneskjur koma okkur við.
Við sýnum fólki virðingu með því að gefa hverjum og einum tækifæri til að kynna sig sem einstakling og taka honum eða henni með opnum huga án þess að dæma eða skipa þeim í fyrirfram skilgreindan hóp. Enginn er aðeins talsmaður ákveðins hóp.
Þegar við dæmum einstakling á grundvelli alhæfinga og staðalmynda er um fordóma að ræða.
Fordómar eru hættulegir og særandi, Hættan felst í því þegar þeir fara að hafa áhrif á hegðun okkar og leiða til mismununar.
Einstaklingur sem er dæmdur frá fyrirfram gefnum tiltækum hóp, er um leið sviptur möguleikanum á að sýna hver hún eða hann er í raun og veru, sjálfsmyndin brotnar og einangrun og einmannaleiki fylgja í kjölfarið.
Fordómar eru því ekki skaðlausar skoðanir, heldur hafa þeir bein áhrif á líf og líðan þeirra sem fyrir þeim verða. Fordómar eru þrálátir og því getur verið erfitt að berjast gegn þeim. En það er von, því fordómar eru hvorki meðfæddir né eðlilegt atferli mannsins. þeir eru lærðir. En það má lika læra að losna við þá.
Mikilvægt er að við tökum þá afstöðu að vera upplýst um fordóma, horfast í augu við þá og ræða eðli þeirra. Með því öðlumst við viðsýni og umburðarlyndi og skaðleg áhrif fordóma á líf og líðan dvína.
Tekið af sáttmálum samstarfshópum gegn fordómum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2008 | 12:45
Skal umbera þá sem misnota tjáningarfrelsið gegn múslimum?
Kvikmyndinni Fitna er lýst sem lifandi tímasprengju af höfundum hennar, en hún hefst með skopmynd af Múhameð spámanni með tímasprengju í stað heila, og í lok myndarinnar springur sprengjan. Þessari kvikmynd er ætlað að kveikja í múslimum, reita þá til reiða, og hvetja öfgamenn til lífshótana, sambærilega afleiðingar og fylgdu birtingu dönsku skopmyndanna og kvikmynda Theo Van Gogh, en Van Gogh var eins og þekkt er myrtur af öfgafullum múslima eftir að hafa fengið töluvert af hótunum.
Fitna er áróðursmynd beint gegn múslimum. Ef lesið er í tungumál kvikmyndarinnar og það þýtt yfir í rökræna hugsun eru skilaboðin augljós, gert er að jöfnu að múslímar og hryðjuverkamenn séu sama fyrirbærið. Sem er alls ekki satt. Síðan þykjast höfundar vera saklaus fórnarlömb ritskoðunar og hótana, á meðan hið sanna er að þeir kölluðu þetta yfir sig. Við vitum að til eru hryðjuverkamenn sem ekki eru múslímar, eins og til dæmis þjóðernissinnuðu Bandaríkjamennirnir sem sprengdu opinbera byggingu í Oklahoma árið 1995, og það þarf ekki nema einn múslima til sem ekki er hryðjuverkamaður til að sýna fram á að ekki allir múslímar séu hryðjuverkamenn, - en fordómar ala hins vegar á vanþekkingu og í þessu tilfelli þeirri vanþekkingu sem fylgir að þekkja ekki neinn múslima og þar af leiðandi geta ekki afsannað að allir múslimar séu hryðjaverkamenn.Í kvikmyndinni er lesið upp úr kóraninum nokkra vafasama kafla, en sambærilega kafla má sjálfsagt finna í hvaða trúarriti sem er, sem ætti náttúrulega aldrei að taka bókstaflega og lifa eftir vilji maður sæmilega friðsamlegt líf. Eftir kaflana er sýnt frá hryðjuverkunum 11. september 2001 þegar tvær farþegaflugvélarnar klesstu á tvíburaturnana, sprengja á lestarstöð í Madrid, aftaka einstaklings, myndir og hljóðupptaka af hollenska kvikmyndaleikstjóranum Theo Van Gogh, sem skotinn var af öfgafullum múslima. Málið er að þegar ráðist er að heilum trúarbrögðum, heilli lífsskoðun og lífssýn, þá má búast við mótmælum. Opinber mótmæli eru sjálfsögð í þessu tilfelli að mínu mati, rétt eins og ef myndin hefði bendlað Íslendinga, Breiðholtsbúa eða Kristna við hryðjuverkastarfsemi. Slíkum áróðri og lygum er sjálfsagt að mótmæla, enda er slíkur áróður misbeiting á frelsi.
En þar sem til er fjöldi öfgafullra einstaklinga og hópa innan sérhverra trúarbragða, og þeir virðast sérstaklega áberandi þessa dagana þegar um múslima er að ræða, er tilhneigingin að dæma alla múslima fyrir þessa einstaklinga, sem aðeins er brot af heildinni. Að segja alla múslima vera hryðjuverkamenn er eins og að segja öll spendýr vera kríur. Þetta er rangt að tvennu leyti, annars vegar eru kríur ekki spendýr og hins vegar stenst ekki að setja smærri flokk (kríur) yfir stærri flokk (spendýr).
Samkvæmt kvikmyndagerðarmönnunum hefur þessi kvikmynd verið fjarlægð af netinu vegna hótana um manndráp frá öfgafullum múslimum. En þetta eru reyndar þau viðbrögð sem að þeir gátu búist við miðað við efni myndarinnar og viðbrögð öfgafullra múslima gegn áróðri sem gerir lítið úr trú þeirra.
Reyndar held ég að þessi kvikmynd hefði aldrei fengið neina athygli hefði henni ekki verið mótmælt af leiðtogum Arabaríkja og múslima, enda með afbrigðum léleg og illa gerð. Það er ljóst að þessi kvikmynd er ærumeiðandi gagnvart múslimum, og ég játa að ég er efnislega sammála þeirri ósk múslima að gera ráðstafanir gagnvart áróðri sem þessum, en er samt ekki viss um að lögbann eða ofbeldi sé rétta leiðin.
Það er einnig ljóst að kvikmyndin brýtur gegn mannréttindasáttmála sameinuðu þjóðanna sem stefna að því að verja mannvirðingu einstaklinga og hópa óháð trúarbrögðum. Ef við viljum styðja við mannréttindi, erum við í raun skuldbundin til að styðja kröfu múslima, að minnsta kosti efnislega.
En hver ætli rétta leiðin sé?
Það er hægt að finna þessa kvikmynd á YouTube, en ég hef ekki geð í mér að setja á hana tengil, einfaldlega vegna þess að hún hefur ekkert listrænt gildi, segir ekki satt og hefur tilgang sem er engan veginn réttlætanlegur.
Höfundur Hrannar Baldursson. http://don.blog.is/blog/don
Við ættum öll að mótmæla svona grófu mannréttinda broti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um bloggið
Félag Anti-Rasista
Tenglar
Mínir tenglar
- Félag anti-rasista Tilgangur félagsins er að berjast á móti rasisma á öllum sviðum.
- www.myspace.com/anti_rasistar
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar